Innlent

Reyndi að snúa á keppinautana

MYND/Vísir

Íbúðalánasjóður reyndi að snúa á keppinauta sína á íbúðalánamarkaði með því að bjóða út íbúðabréf á meðan markaður var lokaður. Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðurinn gerir það.

Íbúðalánsjóður hefur hækkað vexti sína um 0,1% eftir útboð sjóðsins sem lauk í morgun. Vextir á lánum með uppgreiðslugjaldi fara úr 4,35% í 4,45%. Vextir á lánum sem hægt er að greiða upp hvenær sem er fara úr 4,6% í 4,7%.

Útboð Íbúðalánasjóðs var auglýst eftir lokun markaðar í gær og frestur til að skila inn tilboðum rann út klukkan níu í morgun eða við opnun markaðar. Íbúðalánasjóður hefur aldrei áður boðið út á meðan markaður er lokaður. Þetta var þó gert í samráði við Kauphöllina.

Hallur Magnússon, sviðsstjóri þróunar og almannatengsla hjá Íbúðalánasjóði, segir að með þessu hafi sjóðurinn viljað láta viðskiptavini bankas njóta vafans. Þegar markaður sé lokaður er ekki hægt að eiga við ávöxtunarkröfu íbúðabréfa á markaði með því að setja skipulega á markað íbúðabréf til að hækka ávöxtunarkröfu á íbúðabréfum. Fjármálaeftirlitið er með til skoðunar erindi Íbúðalánasjóðs vegna umdeildra viðskipta KB banka með íbúðabréf á útboðsdegi Íbúðalánasjóðs í nóvember síðastliðnum. Að sögn forstjóra Fjármálaeftirlitsins er viðbragða í fyrsta lagi að vænta frá þeim í næstu viku vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×