Innlent

Forsætisráðherra undrandi á úrskurði Kjaradóms

Mynd/GVA

Forsætisráðherra er undrandi á úrskurði Kjaradóms um hækkun launa æðstu embættismanna og kallaði formann dómsins, Garðar Garðarson, á teppið í morgun. Óskaði ráðherrann eftir því að Garðar útskýrði ákvörðun sína fyrir þjóðinni. Játti Garðar því. Forystumenn stjórnmálaflokkanna lýsa flestir yfir furðu á dómnum og vera kann að það verði tekið fyrir á Alþingi.

Nýlegur úrskurður kjaradóms um hækkun launa æðstu embættismanna langt yfir almenna launaþróun í landinu hefur líkt og fyrri úrskurðir dómsins ollið fjaðrafoki í samfélaginu. Reiknidæmið er einnig hjúpað mikilli leynd. Fáir vita hvernig Kjaradómur kemst að sinni niðurstöðu en lögum samkvæmt á hann að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði og gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim er hann ákveður en þó að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Hvað sem því líður þá þýðir úrskurðurinn það að æðstu ráðamenn fá rúmlega helmingi meiri launahækkun en almennir launþegar í landinu á árinu. Frá og með áramótum verður forsætisráðherra með tæpa milljón í laun á mánuði á meðan meðallaun verkamanns verða rúmar 170 þúsund.

Hagfræðingur ASÍ gagnrýnir hina miklu leynd er virðist hvíla yfir rökfærslu kjaradóms. Hann bendir einnig á að útskýringar kjaradóms um að hann taki mið af dómi kjaranefndar hljómi annkanalega í ljósi þess að kjaranefnd beri að taka mið af úrskurði kjaradóms en ekki öfugt.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins lýsir furðu á úrskuði kjaradóms og telur hann líklegan til að riðla jafnvægi og friði á vinnumarkaði.

Formenn stjórnmálaflokkanna hafa keppst við að lýsa andúð á úrskurði kjaradóms. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir telur ekki loku fyrir það skotið að Alþingi skerist í málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×