Innlent

Fjölgar í Ache-héraði í Indónesíu

Tugþúsundir barna fórust í flóðbylgjunni miklu á síðasta ári
Tugþúsundir barna fórust í flóðbylgjunni miklu á síðasta ári AP
Óvenju margar konur eiga von á barni í Ache-héraði í Indónesíu þar sem tugþúsundir barna fórust í flóðbylgjunni miklu á síðasta ári. Fæðingalæknar og ljósmæður segja að þau þurfi enga tölfræði til þess að vita að miklu fleiri konur eigi von á barni, en venjulegt sé. Þau telja að þetta sé eðlilegt náttúrulögmál. Margir þeirra sem lifðu af misstu alla sína fjölskyldu í flóðbylgjunni; börn, foreldra, systkini og maka. Það er talið eðlilegt að fólk vilji tryggja sér á nýjan leik það öryggi og hlýju sem felist í fjölskylduböndum. Á þriðja hundrað þúsund manna fórust í flóðbylgjunni 26. desember sl. og talið er að að meira en þriðjungur þeirra hafi verið börn.

Við misstum svo marga í flóðbylgjunni, nú fáum við fleiri segir nýbökuð móðir lítillar telpu.

Önnur kona Asmika er tuttugu og þriggja ára gömul. Hún missti foreldra sína og þrjú systkini, í flóðunum. Hún var einmana og hrædd, og í febrúar síðastliðnum giftist hún manni sem hún þekkti aðeins lítillega, í fjöldabrúðkaupi. Asmika á nú von á barni og segir: Ég er sorgmædd yfir að hafa misst foreldra mína og systkini, segir hún. En ég er líka glöð yfir að ég á von á barni. Þá mun ég eiga vin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×