Innlent

Leikskólabörn læra um jólahefðir fyrr á öldum

Leikskólabörn streyma á byggðasafnið í Hafnarfirði til að sjá hvernig jólin voru haldin fyrir 200 árum. Margt hefur breyst hér á landi síðustu 200 árin og eru jólin þar engin undantekning. Á Byggðasafninu í Hafnarfirði er tekið á móti sex barnahópum á dag frá því fyrsti jólasveinninn kemur til byggða og fram á Þorláksmessu. Börnunum er sagt frá jólunum eins og þau voru í Sívertsenhúsinu fyrir tveimur öldum.

Marta Dís Stefánsdóttir, leiðbeinandi í Byggðasafninu, segir að í Sívertshúsinu hafi hjónin Bjarni og Rannveig búið, ásamt börnum sínum Sigurði og Járngerði Júlíu. Þegar börnin fundu eplalykt þá vissu þau að jólin væru komin því í gamla daga fengu börn bara epli á jólunum. Þá var auðvitað ekki hægt að kaupa jólatré og þess í stað smíðaði Bjarni tré fyrir fjölskylduna.

Krakkarnir úr leikskólanum Arnarbergi voru meðal þeirra sem heimsóttu byggðasafnið í dag. Jólasveinninn hefur eins og annað breyst síðustu 200 ár og það er óhætt að segja að krakkarnir frá Arnarbergi hafi verið örlítið hissa þegar þau fengu að kynnast gömlu gerðinni af Bjúgnakræki. Óhætt er að segja að börnunum hafi fljótt farið að líka við þennan skrýtna jólasvein sem sýndi töfrabrögð með tilþrifum. Hann dansaði líka með þeim í kringum jólatréð og söng jólalögin eftir bestu getu.

Hægt er að horfa á fréttina í heild sinni á VefTíVí Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×