Erlent

Fella niður útflutningsstyrki

Þúsundir hafa mótmælt auknu frjálsræði í verslun með landbúnaðarafurðir.
Þúsundir hafa mótmælt auknu frjálsræði í verslun með landbúnaðarafurðir. MYND/AP

Ríkari þjóðir heims verða að fella niður alla útflutningsstyrki í landbúnaði fyrir árslok 2013 samkvæmt samkomulagi sem samningamenn á fundi Alþjóða verslunarstofnunarinnar komust að snemma í morgun.

Eftir miklar og erfiðar samningaviðræður komust fulltrúar helstu viðskiptablokka heims komust í morgun að samkomulagi um að fella niður útflutningsstyrki í landbúnaði innan átta ára. Samkomulagið gengur þó skemur en fulltrúar ýmissa þróunarríkja vonuðust til, þeir vildu fella niður útflutningsstyrki fyrir árslok 2010.

Á sama tíma og fundarmenn sögðust hafa náð samkomulagi efndu andstæðingar frjálsrar verslunar með landbúnaðarafurðir til fjölmennra mótmæla í Hong Kong. Mótmælin í morgun voru þó öllu friðsamlegri en mótmælin í gær en þá voru nokkur hundruð manns handteknir.

Auk niðurfellingar útflutningsstyrkja innan átta ára er í samkomulaginu ákvæði um að þegar á næsta ári verði hætt að greiða útflutningsstyrki til bómullarframleiðenda. Þá á að ljúka núverandi samningaferli fyrir þrítugasta apríl á næsta ári en fundalotan hefur staðið með hléum í fjögur ár.

Peter Mandelson, sem fer með alþjóðaviðskipti í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sagði samkomulagið ekki til marks um stórkostlegan árangur en sagði þó að það væri ásættanlegt og kæmi í veg fyrir að fundurinn í Hong Kong flokkaðist undir algjör mistök.

Samkomulagið er þó ekki í höfn fyrr en fulltrúar allra eitthundrað fjörutíu og níu aðildarríkja Alþjóða viðskiptastofnunarinnar greiða atkvæði um það síðar í dag. Atkvæðagreiðslur innan stofnunarinnar byggja á samþykki allra og því nægir andstaða eins ríkis til að ekkert verði úr samkomulaginu.

Samkomulagið hefur ekki bein áhrif á stuðning við íslenskan landbúnað þar sem útflutningsstyrkir til íslenskra bænda voru felldir niður árið 1990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×