Innlent

Hefur óskað eftir minnisblaði sem ríkisábyrgðarsjóður sendi Fjármálaráðuneytinu

Lúðvík Bergvinsson hefur óskað eftir minnisblaði sem ríkisábyrgðarsjóður sendi Fjármálaráðuneytinu um afstöðu hans til frekari ríkisábyrgðar vegna Íbúðalánasjóðs. Hann segir að þingið geti ekki tekið upplýsta afstöðu fyrr en minnisblaðið liggi fyrir.

Komið hefur fram í fréttum að forstjóri Lánasýslu ríkisins gæti ekki svarað því játandi né neitandi hvort hægt væri að mæla með frekari ríkisábyrgðum fyrir Íbúðalánasjóð þar sem úttekt á fjárhagsstöðu sjóðsins hefði ekki verið gerð. Samkvæmt heimildum fréttastofu er minnisblaðið samantekt ríkisábyrgðasjóðs um málefni Íbúðalánasjóðs og afstöðu sjóðsins til frekari ríkisábyrgðar. Lúðvík Bergvinsson hefur fengið staðfest að minniblaðið sé til og óskað eftir því formlega við Fjármálaráðuneytið að fá það í hendur. Hann segir að þingið geti ekki tekið upplýsta ákvörðun um frekari ríkisábyrgðir til handa sjóðnum fyrr en minnisblaðið liggi fyrir sem og úttekt á fjárhagsstöðu sjóðsins. Þriðja umræða um fjárlögin fer fram á morgun og gengið verður til atkvæða um þau fyrir föstudag að öllum líkindum. Félagsmálaráðherra hefur sagt í samtali við fréttastofu að honum hafi þótt of dýrt að greiða fyrirtækinu ráðgjöf og efnahagsspár á sjöundu milljón fyrir úttekt á fjárhagsstöðu sjóðsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu greiddi Íbúðalánasjóður þó meira en hálfan milljarð fyrir ráðgjöf og þóknun til Deutsche Bank þegar gamla húsbréfakerfinu var skipt út. Samkvæmt ráðleggingum frá Deutsche Bank voru gefin út ný skuldabréf fyrir um 80% allra útistandandi skuldabréfa sjóðsins sem voru óvarin gegn uppgreiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×