Innlent

Maður lést í eldsvoða á Ísafirði

mynd/NFS

Rúmlega fimmtugur maður lést í eldsvoða á heimili sínu á Ísafirði í dag. Slökkviliðið var enn að störfum við að ráða niðurlögum eldsins um kvöldmatarleiti. Tilkynnt var um eld í íbúð við Aðalstræti 25 í gegnum neyðarlínu rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Nokkur eldur var í íbúðinni þegar lögregla og slökkvilið komu á staðinn. Við reykköfun í íbúðinni fannst maðurinn og var hann látinn. Sambýliskona mannsins var ekki heima og var hann því einn í íbúðinni. Þorbjörn Sveinsson slökkviliðsstjóri segir að íbúar á efri hæð hafi ekki verið heima þegar eldurinn braust út. Hann segir vel hafi gengið að ráða niðurlögum eldsins. Íbúðinn er hluti af húsalengju sem að mestu er byggð úr timbri og er húsið forskalað að hluta. Reykskemmdir eru í tveimur íbúðum, hárgreiðslustofu og verslun sem eru í húsalengjunni. Upptök eldsins eru ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×