Erlent

Bandaríski herinn borgar írökskum dagblöðum fyrir að birta jákvæðar blaðagreinar um herinn

Bandarískar hersveitir í Írak
Bandarískar hersveitir í Írak MYND/AP

Bandaríski herinn borgar írökskum dagblöðum á laun fyrir að birta jákvæðar blaðagreinar um aðgerðir Bandaríkjahers í Írak. Dagblaðið Los Angeles Times hefur komist yfir gögn sem staðfesta þetta. Þar kemur fram að greinarnar séu skrifaðar af upplýsingafulltrúum hersins á ensku og síðan sjái milliliður um að þýða þær og koma svo í hendur ýmissa dagblaða í Baghdad. Í dagblöðunum birtast greinarnar síðan líkt og þær séu skrifaðar af hverjum öðrum blaðamanni. Í þeim er jafnan dregin upp jákvæð mynd af aðgerðum bandarískra og írakskra hersveita, en þeim mun dekkri mynd af uppreisnarmönnunum sem þær berjast við. Samningur hersins við fyrirtækið sem sér um að þýða greinarnar og koma þeim á áfangastað er leynilegur og átti ekki að komast í fjölmiðla. Margir hátt settir menn innan stjórnkerfisins í Washington segjast afar vonsviknir með að Bandaríkjamenn stundi slíkar aðgerðir á sama tíma og talað sé um að koma á lýðræði í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×