Innlent

Ráðherrar sakaðir um að forðasta að svara spurningum um Kárahnjúkavirkjun

Ráðherrar voru sakaðir á Alþingi í dag um að svara óþægilegum fyrirspurnum um Kárahnjúkavirkjun ýmist með þvættingi eða alls engu.

Káranhnjúkavirkjun var tilefni þriggja ólíkra fyrirspurna á Alþingi en þar reið á vaðið Steingrímur J. Sigfússon sem spurði fjármálarfáðherra hvort hann væri enn þeirrar skoðunar að engin sérstök álitamál eða vandamál væru uppi eða hefðu komið upp í sambandi við skattalega meðferð. Þetta var reyndar í fjórða sinn á þremur árum sem Steingrímur spurði um þetta sama og nýr fjármálaráðherra svaraði eins og forveri hans hafði gert.

Árni M. Matthiesen fjármálaráðherra sagði engin sérstök álitamál eða vandamál vera í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar, umfram það sem kynni að koma upp vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu. Hann tók fram að túlkun forsvarsmanna fyrirtækja á einstökum ákvæða skattalaga færi ekki alltaf saman við túlkun skattyfirvalda en slík mál væru í eðlilegum farvegi og yrðu til lykta leidd samkvæmt lögum og reglum.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri-grænna, gagnrýndi fjármálaráðuneytið fyrir að vera sífellt að gefa röng svör varðandi skattalega meðferð og það væri ámælisvert að ráðuneytið skuli bera svona þvætting á borð fyrir Alþingi.

Fjármálaráðherra taldi Steingrím vera að snúa út úr svari sínu og enda hefði Steingrímur verið á móti Kárahnjúkavirkjun frá upphafi. Steingrímur var með aðra fyrirspurn um Kárahnjúka til iðnaðarráðherra, um seinkun framkvæmda vegna sprunga og misgengja og umframkostnað. Valgerður Sverrisdóttir sagði jarðgangaborun fjóra mánuði á eftir áætlun en enn væri óljóst hvort unnt yrði að vinna þær tafir upp að fullu. Hún sagði ekkert benda til þess að kostnaður við virkjanaframkvæmdir myndu fara fram úr þeirri áætlun sem hafði verið til grundvallar þegar ákveðið var að hefja framkvæmdir. Valgerður sagði það jafnframt ástæðulaust og ótímabært að vera að fjalla um umframkostnað og afleiðingar hans á fjárhag Landsvirkjunar.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi þetta rýr svör. Hann ráðherra vera að draga það á langinn að svara spurningum um framkvæmdirnar enda væri óþægilegt að svara þeim og menn vildu fresta því í lengstu lög að svara spurningum um framkvæmdirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×