Innlent

Notendaábyrgð ekki í frumvarpi

MYND/HARI

Ákvæði um að fyrirtæki sem nýti sér þjónustu starfsmannaleiga beri ábyrgð á kjörum starfsmanna er ekki í frumvarpi til laga um starfsmannaleigur. Ráðherra segir frumvarpið byggt á niðurstöðum starfshóps aðila vinnumarkaðar og séróskir þeirra muni ekki verða í frumvarpinu sem Alþingi eigi lokaorð um.

Alþýðusamband Íslands hefur lýst yfir ánægju sinni með stærstan hluta frumvarps félagsmálaráðherra um lög á starfsemi starfsmannaleigna. Magnús Norðdahl, lögfræðingur sambandsins, lýsti því hins vegar yfir fyrir hönd ASÍ að ákvæði um ábyrgð fyrirtækja á kjörum og aðbúnaði starfsmanna vantaði sárlega í frumvarpið. ASÍ hafði gert kröfu um slíkt ákvæði í vinnu starfshóps sem lögin eru byggð á en því voru fulltrúar Samtaka Atvinnulífs ósammála. Því var ákvæðið ekki inni í tillögum hópsins til ráðherra og þar með ekki í frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi á næstu dögum.

Árni Magnússon segir að samstaða hafi náðst í starfshópnum um þau atriði sem verði í frumvarpinu og því muni tillaga sem ASÍ sendi honum sérstaklega varðandi notendaábyrgðina ekki verða í frumvarpinu. Hann segist aðspurður um hvort reynsla síðustu ára sýndi ekki fram á að fyrirtæki sem nýttu sér slíka þjónustu þyrftu að bera ábyrgð, að auðvitað megi endalaust bæta inn í slík lög, og ekki sé loku fyrir skotið að Alþingi eða félagsmálanefnd geri slíka breytingu reynist áhugi fyrir því. Alþingi eigi enda lokaorðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×