Innlent

Löng bið hjá Greiningarstöð ríkisins

Grunnskólabörn þurfa að bíða í um og yfir tvö ár eftir greiningu hjá Greingar- og ráðgjafarmiðstöð ríkisins. Forstöðumaður stofnunarinnar segir ástandið ekki viðunandi og horfir fram á vanda næstu árin. Styrktartónleikar fyrir Greiningarmiðstöðina verða haldnir í Landakotskrikju í dag klukkan fjögur.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins starfar á vegum félagsmálaráðuneytisins og þjónar fötluðum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra. Þar fer fram athugun og greining barna með fatlanir ásamt því sem fjölskyldum fatlaðra barna er veittur stuðningur og ráðgjöf.

Á undanförnum árum hefur nýjum tilvísunum til stofnunarinnar fjölgað ört, en þær voru 142 árið 1992 en 258 á síðasta ári. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að biðlistar eftir greiningu hafa lengst og nú bíða um 200 börn eftir greiningu.

Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningarstöðvarinnar segir ástandið alls ekki viðunandi enda þurfa grunnskólabörn að bíða í um og yfir tvö ár eftir greiningu, eldri leikskólabörn í eitt ár og yngstu leikskólabörn í hálft ár. Hann segir ástandið hafa versnað mikið síðustu árin vegna þess að samfara auknum skilningi á eðli fatlana hjá börnum og fleiri úrræðum til að auka getu þeirra sé beðið um aðstoð fyrir mun fleiri börn.

Hann segir þó ákveðin viðbrögð í gangi. Stofnunin hafi fengið þrjú og hálft stöðugildi á þessu og síðasta ári og þá sé gert ráð fyrir þremur stöðugildum á næsta fjárlagaár. Áætlað sé að stofnunin þurfi allst 12 stöðugildi þannig að á næsta ári séu menn komnir ríflega hálfa leiðina. Hins vegar megi búast við að stofnunin búi við þetta ástand til nokkurra ára

Caritas, hjálparstarf kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, efnir í dag klukkan 16 til styrktartónleika í Landakoti í þágu fatlaðra barna og mun allur ágóði renna til Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×