Innlent

Stefna á að halda áfram loðdýraræktun

Blóðsjúkdómur í minkum hefur greinst á bæ í Skagafirði og skera þarf niður rúmlega þúsund dýr á bænum. Sjúkdómurinn greindist síðast árið 1996. Grunur leikur á smiti á öðrum bæ í Skagafirði.

Hjónin Haraldur Stefánsson og Ragnheiður Kolbeinsdóttir, bændur á bænum Brautarholti í Skagafirði, þurfa að aflífa allan minkastofn sinn þar sem blóðsjúkdómur greindist í minkunum. Haraldur segir að niðurskurður sem þessi sé alltaf ákveðið tjón, þrátt fyrir að ríkið greiði einhverjar bætur. Hann segir að það geti tekið allt að ár þar til þau geti fengið ný dýr í húsin, en það taki tíma sinn að þrífa og sótthreinsa minkahúsið og fá nýjan stofn.

Þetta er í annað sinn sem þau hjónin þurfa að skera niður bústofn sinn en árið 1987 greindist riða á bænum og því þurfti að skera niður allan sauðfénað. Þau hófu minnkabúskap í framhaldi en minnkarnir hafa verið þeirra aðalbúskapur síðan árið 1989. Þau hjónin eru þó ekki af baki dottin og stefna á að fara aftur út í loðdýraræktun að öllu óbreyttu.

Einar E. Einarsson, loðdýraræktarráðunautur hjá Búnaðarsambandi Íslands, segir að síðast hafi komið upp blóðsjúkdómur í minkum árið 1996 en sjúkdómurinn sé þekktur meðal villtra minka sem aliminka hér á landi og erlendis. Sjúkdómurinn hefur áhrif á frjósemi og lífaldur dýranna og til lengri tíma litið sé engum greiði gerður að halda dýrunum áfram þó dýrin geti í sjálfu sér lifað með sjúkdóminn. Minkabændur taka árlega sýni út læðum sem eignast fáa unga eða eru geldar sem síðan er sent til rannsókna á rannsóknarstöðina að Keldum. Grunur leikur á smiti á öðrum bæ í Skagafirði en verið er að rannsaka sýni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×