Innlent

Vill nýjan sæstreng

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, segir að tíðar truflanir á netsambandi við umheiminn séu óþolandi. Hann ætlar að beita sér fyrir því að nýr sæstrengur verði lagður.

Nokkur hátæknifyrirtæki hafa þegar flutt starfsemi sína til annarra landa. Bæði vegna þessa há verðlags sem hér er og einnig vegna tíðra bilana í Farice en þær eru orðnar þrettán eða fjórtán hér á landi.

Meðal fyrirtækja sem þegar hafa flutt netþjón sinn úr landi er tölvufyrirtækið Friðrik Skúlason ehf. Hugbúnaðarfyrirtækið DoHop, sem starfrækir leitarvél fyrir lág fargjöld hefur einnig boðað brottflutning og ætlar ekki að snúa aftur fyrr en bætt hefur verið úr netsambandinu. Hátæknifyrirtæki geta orðið fyrir miklu tjóni þegar samband slitnar. Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, er vel kunnugt um þennan vanda.

Sturla segir að fyrirtækið Farice fari með málefni sæstrengsins en ríkissjóður er hluthafi þar í. Óásættanlegt sé að strengurinn sinni ekki flutningsgetu og þeirri þjónustu sem er nauðsynleg. Leggja þurfi nýjan streng og vinna þurfi fullum fetum að því á næstunni.

Sturla sagði að undirbúningur og lagning nýs strengs tæki mörg misseri, og leitað yrði allra leiða til þess að tryggja öruggt netsamband þar til hann yrði tilbúinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×