Innlent

Ekki enn ástæða til að vara Íslendinga gegn því að ferðast til Frakklands

Tómas Ingi Olrich, sendiherra Íslands í París, segir að ekki sé ástæða til að vara Íslendinga við því að koma til Parísar eða annarra borga í Frakklandi, enn sem komið er. Hins vegar sé fylgst með framvindu mála og staðan metin. Tómas Ingi Olrich segir að óeirðirnar séu einkum í úthverfum Parísar en engu að síður sé full ástæða til að hafa varann á.

Sendiherran segir að Íslendingar búsettir í París eða íslenskir ferðamenn, hafi ekki leitað til sendiráðsins vegna óeirðanna.Hann segir óeiðirnar teknar mjög alvarlega af stjórnvöldum í Frakklandi. Þau séu ákveðin í að taka málið föstum tökum. Fyrst þurfi að koma á lögum og reglu á ný og stöðva óeirðirnar, síðan verði ráðist að rót vandans og orsakir óeirðanna skoðaðar. Tómas Ingi segir ýmiss samtök múhameðstrúarmanna í Frakklandi hafa lagt sitt af mörkum til að róa fólk. Það væru því ekki eingöngu stjórnvöld og lögregla sem reyndu að stöðva óeirðirnar. Allir vilji að þeim linni sem fyrst.

Ráðmenn í Bandaríkjunum, Ástralíu, Kanada, Bretlandi, Rússlandi og Hollandi hafa nú varað ríkisborgara sína við að ferðast til Frakklands sem er vinsælasta ferðamannaland heims. Leon Bertrand, ferðamálaráðherra landsins, viðurkennir að óeirðirnar geti haft áhrif á komu ferðamanna ef þær dragast á langinn. Á hinn bóginn sé alla jafna ekki mikið um ferðamenn á þeim svæðum sem orðið hvað verst úti. Ráðherrann segir að hingað til hafi enginn ferðamaður lent í vandræðum. Frakkland sé þrátt fyrir allt öruggt land fyrir ferðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×