Innlent

Formaður hvetur KR-inga til að kjósa

Mynd/Hilmar

Guðjón Guðmundsson, formaður KR, hvetur KR-inga til að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðismanna tvo tiltekna frambjóðendur sem bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem hóst í dag. Sjálfstæðismenn kjósa í dag og á morgun um hverjir skulu skipa níu efstu sæti á framboðslista flokksins í kosningum til borgarstjórnar næsta vor. Baráttan hefur að mestu snúist um hver mun skipa efsta sæti listans. Það er líka hiti í baráttunni um sætin þar fyrir neðan og hefur nú Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, blandað sér inn í baráttunna með áberandi hætti. Þannig hvetur formaður félagsins alla KR-inga sem ætla að taka þátt í prófkjörinu til að kjósa Benedikt Geirsson og Kjartan Magnússon í þau sæti sem þeir óska eftir í prófkjörinu. Á heimasíðu KR-inga segir formaðurinn Guðjón Guðmundsson, að Kjartan Magnússon borgarfulltrúi og Benedikt Geirsson hafi sinnt íþróttunum mjög vel. Orðrétt segir formaðurinn; "Ég hvet KR-inga til að styðja þessa menn og óska þess sérstaklega að Kjartan fái það sæti sem hann sækist eftir." Ekki tókst að ná sambandi við Guðjón fyrir fréttir, en fréttastofan hafði samband við framkvæmdarstjóra KR í morgun og vildi hann ekki tjá sig um það hvort þessi áskorun formannsins væri eðlileg. Þá hafði fréttastofan samband við varaformann félagsins sem var ekki tilbúinn að tjá sig nú fyrir hádegi en hann er staddur í Bandaríkjunum og því árla morguns hjá honum. Hann sagðist reiðubúinn til þess eftir hádegi.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×