Innlent

Launaleynd til trafala

Kvenfrelsi og jafnréttismál verða meðal helstu áherslumála Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs að loknum landsfundi flokksins sem lýkur á Grand hóteli í Reykjavík í dag.„Við ákváðum fyrir tveimur árum að endurskoða stefnu-yfirlýsingu- okkar með það fyrir augum að koma þessum málum í sviðsljósið. Landsfundi lýkur daginn fyrir kvennafrídaginn og það fer vel á því að koma kvenfrelsismálum í sviðsljósið,“ segir Katrín Jakobsdóttir, varaformaður -vinstri- grænna. Hún segir að ástæða sé til að nota hugtakið kvenfrelsi, en ekki aðeins jafnrétti kynjanna, til þess að endurspegla áherslurnar. „Konur eru reyndar meirihluti kjósenda vinstri grænna. Við erum ekkert að reyna að sækja nýtt fylgi til kvenna með nýjum áherslum heldur erum við að setja kvenfrelsið formlega í stefnuyfirlýsingu okkar og gera málaflokkinn að meginstoð í starfi okkar.“ Í pallborðsumræðum á landsfundinum um kvenfrelsi kom fram í máli Atla Gíslasonar lögfræðings að íslenska ríkið og önnur ríki sem bundin eru mannréttindasáttmálum ættu með virkum úrræðum að tryggja að konur og karlar nytu jafns réttar í hvívetna. Það ætti líka við um sömu laun fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. „Ríkið lætur mannréttindabrot, sem kynbundinn launamunur er, viðgangast... Við megum ekki sitja með hendur í skauti.“ Atli taldi launaleynd vera meinsemd og sagði brýnt að jafnréttisyfirvöld fengju heimild til þess að aflétta slíkri leynd. „Það merkilega er að samkeppnisstofnun, skattayfirvöld og fjármálaeftirlitið hafa þessar heimildir. En þegar maður vill fá heimild til þess að rjúfa viðvarandi mannréttindabrot þá sýpur ríkisstjórnin hveljur og ýmsir íhaldsmenn. Það er mun brýnna að veita heimildir til þess að rjúfa þessa kyrrstöðu gagnvart konum heldur en að eltast við það hvort fjármálafyrirtæki fara sínu fram.“ Atli Gíslason minnti á að ríkið bæri mikla ábyrgð sem stærsti atvinnurekandinn og viðsemjandinn um launakjör kvenna: „Þar eru hæg heimatökin.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×