Erlent

Einstök lest tekin í gagnið í Kína

Hún fer hærra en nokkur hefur farið á undan henni, lestin sem Kínverjar vígðu með stolti um helgina. Eftir áratuga starf hefur loksins verið lokið við að leggja lestarteina þvert yfir Tíbet. Þar brunar lest sem á engan sinn líka.  Það var árið 1958, átta árum eftir að kínverski kommúnistaflokkurinn sendi hersveitir sínar inn í Tíbet, sem hafist var handa við lagninu lestarteina frá höfuðborginni, Lhasa, til Qinghai-héraðs í norðvesturhluta landsins. Nú, nærri hálfri öld síðar, er smíðinni lokið. Lestin er söguleg fyrir fleiri sakir. Til að mynda fer engin lest hærra, en þessi liggur hæst í ríflega fimm þúsund metra hæð yfir sjávarmáli. Eðli máls samkvæmt er ekki auðvelt að anda þar og því eru lestarvagnarnir loftþéttir og þrýstijafnaðir eins og farþegaflugvélar. Leiðin liggur um hundruð kílómetra sífrera og var meira en að segja það að leggja teinana, sem eru sérstaklega hannaðir til að þola álagið og hitabreytingar. Verkamennirnir voru með súrefniskúta til að lifa af. Gagnrýnendur lestarinnar segja hana leiða til þess að kínverskir innflytjendur flykkist nú til Tíbet og kaffæri þar heimamenn og menningu þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×