Erlent

Tugir falla í árás uppreisnarmanna

Téténskir uppreisnarmenn lýstu ábyrgð á árásinni, en með henni færðist vettvangur stríðs íslamska uppreisnarmanna á Kákasussvæðinu gegn Rússum enn frekar út, en það hefur nú staðið í á annan áratug. Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði hernum að loka Nalchik alveg af til að hindra að nokkur uppreisnarmaður kæmist undan. Hver sá sem gerði sig líklegan til að sýna vopnaða mótspyrnu skyldi skotinn. Ágiskanir um fjölda árásarmanna léku á bilinu 60 til 300. Interfax-fréttastofan hafði í gærkvöld eftir aðstoðarmanni héraðsstjóra Kabardino-Balkaria að 59 skæruliðar hefðu verið drepnir og 17 handteknir. Nalchik er um 100 km norð-vestur af bænum Beslan í Ingúsétíu, þar sem téténskir skæruliðar tóku hundruð skólabarna og foreldra þeirra í gíslingu í fyrra, en sú gíslataka endaði með ósköpum. Á vefsíðunni Kavkaz-Center, sem álitin er málpípa uppreisnarmanna sem fylgja téténska skæruliðaforingjanum Shamil Basajev að málum, kom fram að yfirlýsing hefði borist frá "Kákasus-fylkingunni" þar sem ábyrgð var lýst á árásinni. Þar segði að árásarmennirnir væru liðsmenn vopnaðra uppreisnarsveita Téténa, en til þeirra teldist líka Yarmuk, hópur herskárra múslima með bækistöðvar í Kabardino-Balkaria. Samræmdar árásir á bækistöðvar lögreglu eins og gerðar voru í gær minna mjög á umsátur uppreisnarmanna um lögreglustöðvar í Ingúsétíu í fyrra, en í þeim féllu 92 manns og vopnageymslur lögreglu voru tæmdar. Basajev lýsti ábyrgð á þeim árásum og gíslatökunni í Beslan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×