Erlent

Steinmeier í þýsku utanríkismálin

Frank Walter Steinmeier, starfsmannastjóri Gerhards Schröder fráfarandi kanslara, verður næsti utanríkisráðherra Þýskalands. Þetta kom í ljós er forusta þýska jafnaðarmannaflokksins SPD staðfesti hverjir úr þeirra röðum tækju sæti í væntanlegri samsteypustjórn með kristilegum demókrötum. Franz Müntefering, formaður SPD, verður varakanslari og ráðherra atvinnumála. Peer Steinbrück, fyrrverandi forsætisráðherra sambandslandsins Nordrhein-Westfalen, verður fjármálaráðherra. Alls munu átta af fjórtán fagráðherrum stjórnarinnar verða jafnaðarmenn. Þrír ráðherrar úr fráfarandi stjórn - dómsmálaráðherrann Brigitte Zypries, heilbrigðisráðherrann Ulla Schmidt og þróunarmálaráðherrann Heidemarie Wieczorek-Zeul - sitja áfram. Steinmeier hefur verið áhrifamikill en þó frekar óáberandi samherji Schröders allt frá því þegar kanslarinn var forsætisráðherra Neðra-Saxlands. Þegar Schröder varð kanslari árið 1998 fylgdi Steinmeier honum þangað sem ráðgjafi og tók við sem yfirmaður kanslaraskrifstofunnar árið 1999, er Bodo Hombach vék úr því embætti. Að svo náinn samstarfsmaður Schröders skyldi veljast í utanríkisráðherraembættið vekur spurningar um hversu mikla möguleika Angela Merkel, leiðtogi kristilegra, muni sem kanslari hafa á því að breyta um kúrs í utanríkismálunum. Merkel hefur heitið því að stórbæta samskiptin við Bandaríkjastjórn, en þau hafa verið erfið frá því að Schröder ákvað að styðja ekki innrásina í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×