Innlent

Flóttamenn til landsins

Tíu flóttamenn, konur og börn komu til Íslands í dag frá Kólumbíu. Þetta er þriðji hópurinn sem kemur til landsins á þessu ári. Hópurinn sem kom til Keflavíkur nú seinni part dags samanstendur af þremur konum og sjö börnum sem flúður heimaland sitt, Kólumbíu, vegna borgarastyrjaldar. Þau koma frá Quito í Ekvador og eru þriðji hópurinn sem kemur til landsins en alls hefur þá komið 31 flóttamaður til landsins á þessu ári. Konurnar eru skilgreindar í hópnum „Women at risk" hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og voru í mikilli lífshættu og bráðri þörf fyrir brottflutning. Árni Gunnarsson, formaður Flóttamannaráðs, segir að flóttamennirnir munu öll koma til með að búa í Reykjavík en þar muni Rauði krossinn og Félagsþjónustan í Reykjavík taka á móti fólkinu. Flóttafólkið mun fá íbúðir og stuðningsfjölskyldur, auk þess sem það mun fá framfærslu og íslenskukennslu. Árni segir fólkið fara inn í árslangt ferli sem miðast að því að það getið orðið sjálfbjarga í íslensku samfélagi í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×