Innlent

Endurlífgaður eftir hjartastopp

Tuttugu og þriggja ára gamall maður, Sveinn Rafn Eiðsson, var endurlífgaður eftir að hjartað í honum stöðvaðist þegar hann féll niður fjóra metra við Fylkisheimilið í Árbæ. Sveinn Rafn var á dansleik í Fylkisheimilinu aðfararnótt 25. september. Hann segir að hann eigi að hafa stokkið eða dottið fram af vegg við húsið, en hann viti ekki nákvæmlega hvað hafi gerst þar sem allt hafi þurrkast út úr hausnum á honum við höggið. Hann slasaðist mjög alvarlega við fallið, hjartað í honum stöðvaðist og hann meiddist á baki og hnakka. Sveinn Rafn segist þakka sjúkraflutninamönnum mikið fyrir björgunina þar sem þeir hafi aðeins verið um þrjár mínútur á staðinn. Þeir hafi gefið honum raflost til að lífga hann við og hann kunni þeim bestu þakkir fyrir það. Sveinn Rafn lá á spítala í tíu daga og þar af var hann fjóra daga á gjörgæsludeild. Veggurinn sem Sveinn Rafn datt um er við Fylkisheimilið og er hann 70 sentímetra hár. Aðspurður hvort til standi að laga vegginn segir Örn Hafsteinsson, framkvæmastjóri Fylkis, að það hafi staðið til um nokkurn tíma en iðnaðarmaðurinn sem hafi tekið það að sér hafi ekki komist til þess vegna anna. Örn tekur undir það að veggurinn sé stórhættulegur en hann hafi þó verið byggður á sínum tíma samkvæmt þeirri reglugerð sem þá hafi gilt og af viðurkenndum verktökum. Ekkert sé við því að segja. Örn segir að blómabeð við vegginn hafi átt að varna því að krakkar færu upp á hann, en það hefði ekki fengið að vera í friði. En til standi að hækka vegginn um 40 sentímetra. Sveinn Rafn vill að veggurinn verði hækkaður. Hann segir menn hafa lofað að laga vegginn en nú séu liðnir 10 dagar og ekkert hafi gerst. Aðspuður hvernig honum líði í dag segir Sveinn Rafn að hann sé að skríða saman, hann sé þróttlítill en þetta komi skref fyrir skref. Spurður um þá upplifun að deyja segir Sveinn Rafn að það hafi ekki verið mikið sjokk fyrir hann en allir í kringum hann hafi verið í rusli og verst fyrir þá. Spurður hvort hann líti öðrum augum á lífið segir Sveinn að að sjálfsögðu geri hann það, hann fari að minnsta kosti hægar í sakirnar hér eftir. Næstu vikur þarf Sveinn Rafn að taka því rólega. Hann býst ekki við að þurfa að fara í endurhæfingu en hann er víða sár eftir áfallið. Sveinn Rafn vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem önnuðust hann á staðnum og sjúkraflutningamannanna sem björguðu lífi hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×