Innlent

Játar að hafa stungið Vu Van Phong

Mál Víetnamanna vakti mikla athygli fyrr á árinu. Phong var stunginn til bana í matarboði í heimahúsi í Hlíðarhjalla í Kópavoginum um hvítasunnuna, Alls voru sautján matargestir í boðinu þegar einn gestanna snöggreiddist að sögn vitna og myrti Vu Van Phong með eggvopni sem að sögn lögreglu var líklega tekið úr eldhúsi í íbúðinni. Mörg vitni voru að atburðinum, en engum var boðin áfallahjálp að undanskilinni fjölskyldu hins látna. Friðrik Smári Björgvinsson, talsmaður lögreglunnar í Kópavogi, sagði á sínum tíma að lögreglan hefði mætt í Hlíðarhjallann innan við tveimur mínútum eftir að henni barst tilkynningin. Phong, sem kallaður var Jói, vann í Efnalauginni Björg í Mjóddinni ásamt eiginkonu sinni, og sögðu vinnuveitendur hans skömmu eftir lát hans að hann hefði verið hvers manns hugljúfi. Hann var 28 ára gamall, og fluttist hingað árið 2000. Hann skildi eftir sig unga ekkju, Thanh Viet Mac, og þriggja ára gamla dóttur, og átti Viet von á öðru barni þeirra hjóna. Viet, sem er 27 ára gömul, fluttist hingað ári á undan manni sínum, en móðursystir hennar var meðal fyrstu flóttamannanna sem komu hingað til lands frá Víetnam á vegum Rauða Krossins fyrir fjórtán árum. „Jói smakkaði aldrei áfengi, vann vel fyrir heimili sínu og fjölskyldu og var hugljúfi allra þeirra sem hann þekktu. Hann var einstaklega sterkur persónuleiki og gaf af sér. Hann var duglegur, glaður og jákvæður. Allir smituðust af jákvæðu viðhorfi hans. Jói er búinn að vera eins og einn af okkur og hefur gengið í öll störf og tók það ekki illa upp þó að konur segðu honum fyrir verkum. Hann var mikill jafnaðarmaður og friðarsinni og barði ekki einu sinni í borð þótt hann reiddist,“ sagði Sigurður Jónsson, vinnuveitandi Jóa, í viðtali við Fréttablaðið í vor. Phu Tién Nguyén situr í gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni. Réttað verður í málinu síðar í mánuðinum með aðstoð túlks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×