Innlent

Kjarasamningar stefna í uppnám

Opinber stjórntæki megna ekki að halda aftur af verðbólgunni þannig að kjarasamningar stefna í uppnám, segir Hannes Sigurðsson, hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Hannes segir að svonefnd forsendunefnd, skipuð fulltrúum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, sé þegar byrjuð að meta stöðuna með tilliti til uppsagnarákvæða í kjarasamningum vegna verðbólgu og á niðurstaða nefndarinnar að liggja fyrir 15. nóvember. Þá eigi endanlega að liggja fyrir hvort forsendur kjarasamninganna eru brostnar eða ekki. Hannes segir stöðuna um margt óvenjulega; Seðlabankinn telji stöðuna vera orðna mjög alvarlega en stjórnvöld tali um gott ástand og jafnvægi. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra staðfesti að nokkru þessa skoðun Hannesar í stefnuræðu sinni á Alþingi í gærkvöldi þegar hann sagði að aukning verðbólgu umfram spár mætti „alfarið“ rekja til hækkunar á fasteignaverði og olíuverði. Hann vék hins vegar ekki að því að verðbólgan ógnar nú vinnufriði í landinu en sagði aftur á móti að það lægi fyrir að stjórnvöld hefðu tekið réttan pól í hæðina með því að fylgja skýrri langstímastefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt. Verði niðurstaða samráðsnefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins sú þann 15. nóvember, að forsendur kjarasamninga séu brostnar, þurfa launþegar að segja upp samningum fyrir 10. desember og tekur uppsögnin þá gildi um áramót. Það veltur svo á framhaldinu hvort eitthvert félag eða félög grípi til verkfallsvopnsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×