Innlent

Gripið við sæbjúgnaveiðar

Varðskip kom á sunnudaginn að Hannesi Andréssyni SH-747 þar sem skipið var við ólöglegar sæbjúgnaveiðar á Aðalvík. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta á Ísafirði. Við athugun varðskipsmanna kom í ljós að leyfi til tilraunaveiða á sæbjúgum var útrunnið. Var skipið því fært til Bolungarvíkur og er málið nú til meðferðar hjá sýslumanninum í Bolungarvík. Veiðar á sæbjúgum í plóg eru bannaðar við Ísland nema með sérstöku leyfi frá sjávarútvegsráðuneytinu. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta hefur áðurnefnt skip haft leyfi til veiðanna en það hafði runnið út fyrir nokkrum dögum. Þokkaleg veiði hefur verið á sæbjúgum á Aðalvík og var skipið komið með um sjö tonna afla þegar það var fært til hafnar í Bolungarvík. Líklega mun þó sá afli ekki reynast áhöfn Hannesar happadráttur enda aflinn haldlagður eins og lög gera ráð fyrir. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er þetta í fyrsta skipti sem skip er staðið að ólöglegum sæbjúgnaveiðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×