Innlent

Kynlíf er skiptimynt í partíum

"Litlar stelpur eru ekki að spyrja hvort þriggja manna kynlíf sé í lagi, heldur hvenær sé í lagi að byrja á því. Sjónarmiðin eru á því stigi. Auðvitað gerir enginn athugasemdir við kynlíf fullorðins fólks, en hérna erum við að tala um þrettán, fjórtán ára unglinga.“ Auk þessa leita sífellt fleiri ungar stúlkur til heilbrigðisþjónustunnar og Stígamóta með áverka eftir ýmis konar kynhegðun sem Sigurður segir flestir séu sammála um að telpur eigi ekki að þurfa taka þátt í. Vegna þessa vanda vinnur Landlæknisembættið þessa dagana að því að setja á stofn þverfaglegan samvinnuhóp sem ætlað er að berjast gegn klámvæðingu unga fólksins. Í þessum samvinnuhópi verða fulltrúar frá heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni, kirkjunni, unglingunum sjálfum og fleiri aðilum. Ástæðan fyrir þessari hugarfarsbreytingu sem orðið hefur meðal unglinga síðustu tíu til tuttugu árin má líklega rekja að mörgu leyti til breytinga á umfjöllun um kynlíf. Börn eiga auðveldari aðgang að hörðu klámi á netinu, og skýrskotun til skyndikynna er mikil í fjölmiðlum, bíómyndum, auglýsingum og víðar, og útkoman er sú að börn og unglingar fá þau skilaboð að kynlíf snúist ekki um gagnkvæma virðingu og skilning tveggja aðila, heldur um eitthvað allt annað. „Kynlífsvæðingin er orðin einhversskonar misskilin töffarafrjálslyndisumræða sem er komin út í öfgar. Maður heyrir sögur um að unglingar séu varla taldir menn með mönnum nema þeir hafi sofið hjá tveim til þremur fyrir sextán ára aldur, og ef ekki öllum í einu, þá einum á fætur öðrum,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×