Innlent

Litlar eignir til upp í kröfur

Gjaldþrot Héraðsdómur Norðurlands eystra féllst í gær á gjaldþrotabeiðni Slippstöðvarinnar á Akureyri og var Sigmundur Guðmundsson, lögmaður á Akureyri, skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu kröfur í búið skipta hundruðum milljóna króna en félagið á litlar eignir á móti sem hægt er að koma í verð. Upptökumannvirkin sem Slippstöðin hefur haft til afnota, flotkvíin og dráttarbrautin, eru í eigu Hafnarsamlags Norðurlands og smærri verkfæri eru í eigu starsfmannanna sjálfra. Stáltak á bæði fasteignirnar á athafnarsvæði Slippstöðvarinnar sem og stærri tæki og er Íslandsbanki með veð í þeim eignum. Helstu verðmæti þrotabúsins eru því verksamningar sem gerðir hafa verið en verkefnastaða félagsins var með betra móti þegar félagið fór í þrot. Skiptastjóri þrotabúsins átti fund með starfsmönnum Slippstöðvarinnar í gær og tilkynnti að hann óskaði ekki eftir að þeir lykju við þau verkefni sem í gangi voru. Starfsmennirnir munu því fara á atvinnuleysisskrá og á meðan óvissa er um hvort starfsemin verður endurreist eru öll verkefni í uppnámi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa nokkur fyrirtæki tengd skipaiðnaði áhuga á að koma að stofnun nýs félags um rekstur slippstöðvar á Akureyri. Þeirra á meðal er Skipasmíðastöðin Þorgeir og Ellert á Akranesi, vélsmiðjan Hamar á Eskifirði og Stálsmiðjan í Reykjavík. Akureyrarbær er lang stærsti eigandinn að Hafnarsamlagi Norðurlands og bæjaryfirvöld hafa lýst yfir að þau séu tilbúin að koma að endurreisn Slippstöðvarinnar. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga, segir KEA vera að skoða hugsanlega aðkomu að stofnun nýs félags en ákvörðun þess efnis hafi þó ekki verið tekin. Starfsmenn sjálfir eru einnig að íhuga hvort þeir geti komið að stofnun nýs félags en ljóst er að þeir munu ekki leggja fram mikla fjármuni. Þeir búa hins vegar yfir verkþekkingunni sem nýtt  félag mun byggja á og hugsanlega mætti meta þá þekkingu sem ígildi hlutafjár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×