Innlent

Atlantsolía leitar réttar síns

Skeljungur segir Atlantsolíu hafa brotið lög með auglýsingaskilti þar sem lofað var tveggja króna afslætti. Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu segir þetta alrangt og segir fyritækið ætla að leita réttar síns vegna málsins. Hann segir einnig að Skeljungsmenn þoli illa samkeppni. Skiltið hefur verið tekið niður en Hugi segir þó Atlantsolíu muni leita frekari svara við því hvers vegna Neytendastofa telur það brjóta í bága við lög, skilti sem einungis auglýsti afslátt af bensíni. Hugi segir að Neytendastofa telji að skiltin séu í sama flokki og skilti frá stóru olíufélögunum hér áður þar sem þau auglýstu fjögurra króna afslátt af bensíni. Talið hafi verið að neytendur fengju ekki réttar upplýsingar með þeim.  Atlantsolía telji hins vegar að þau skilti sem hún setji tímabundið séu í fullu samræmi við reglur sem gildi um verðmerkingar við bensínstöðvar. Hugi vandar olíufélöginunum ekki kveðjurnar og segir að svo virðist vera sem þau þoli ekki samkeppni. Atlantsolía telji sig vera í fullum rétti við að kynna lækkað verð tímabundið. Lækkunin hafi bara gilt í tvo daga en eftir einungis 20 klukkustundir hafi forsvarsmenn Atlantsolíu fengið símtal frá Neytendastofu þar sem kokkað hafi verið upp í smiðju eins af keppinautum fyrirtækisins. Hugi segir þetta ekki í fyrsta skiptið sem Skeljungur kvartar yfir samkeppni en Skeljungur sendi á síðasta ári bæjaryfirvöldum í Kópavogi bréf þar sem bensínafgreiðslustöð við Dalveg, við hlið bensínstöðvar Skeljungs, var mótmælt og fullyrt að Skeljungur ætti skaðabótakröfu á hendur bænum vegna fjárhagstjóns ef stöðin yrði leyfð. Sem sagt Skeljungur mótmælti samkeppninni. Skeljungsmenn sögðu að umferð að hinni nýju stöð færi um sömu aðrein og umferð að Select-stöðinni og gangandi vegfarendur á lóðinni og starfsfólk yrði í hættu. Þá sögðu Skeljungsmenn að óskiljanlegt væri, hvers vegna troða þyrfti bensínstöð á svæði þar sem önnur væri fyrir og segist Hugi undrast aðferðir Skeljungsmanna. Ekki náðist í forsvarsmenn Skeljungs fyrir fréttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×