Erlent

Hægri hönd al-Zarqawi skotinn

Lík 22 manna fundust sundurskotin í borginni Kut í Írak í gær. Þá var skýrt frá því að bandarískar og íraskar hersveitir hefðu fellt næstráðanda al-Kaída í Írak um helgina. Líkin í Kut voru í borgaralegum klæðum en þau eru talin vera af sjíum. Ekki er vitað hvenær þeir voru teknir af lífi en talið er að margir dagar geti verið síðan. Hendur þeirra höfðu verið bundnar og bindi sett fyrir augun. Yfirvöld skýrðu frá því í gær að Abdullah Abu Azzam, háttsettur félagi í al-Kaída í Írak, hefði fallið í bardögum við íraska og bandaríska hermenn á sunnudagsmorguninn. Azzam er sagður hafa stýrt ýmsum hryðjuverkaárásum al-Kaída í landinu undanfarin misseri, meðal annars lýsti hann ábyrgð á tilræðinu við Izzadine Saleem, forseta ráðgjafarráðs Íraka, í maí 2004. Hann er auk þess sagður hafa fjármagnað flutninga á erlendum vígamönnum sem streymt hafa inn til landsins undanfarin misseri. Ekki er víst hvaða áhrif drápið á Azzam mun hafa. Bandaríkjaher hefur margoft sagst hafa haft hendur í hári háttsettra hryðjuverkamanna en þrátt fyrir það hefur ekkert lát orðið á uppreisninni í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×