Erlent

Má ekki horfa á börn annarra

Stjórnendur Calderdale Royal sjúkrahússins í Halifax í Englandi hafa lagt blátt bann við að fólk hjali við og stari á nýfædd börn annars fólks á fæðingardeild sjúkrahússins. Bannið er hluti af nýjum starfsreglum sem leggja hart að starfsfólki að koma fram við sjúklinga af fullri virðingu að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Á einni fæðingardeildinni hefur verið komið fyrir brúðu sem á er letruð setningin: „Hvers vegna heldurðu að ég vilji láta stara á mig?“ Þingmaðurinn Linda Riordan er lítt hrifin. Hún segir þetta til marks um að skriffinskan sé komin út í öfgar og segir: „Allar mæður vilja að dáðst sé að barninu sínu vegna þess að öll börn eru falleg.“ Að sögn BBC hafa nokkrar mæður látið óánægju sína í ljós með að fólki sé bannað spyrja þær um nýfæddu börnin. Stjórnendur sjúkrahússins segja reglurnar hins vegar sjálfsagðar og eðlilegar. Haft er eftir Debbie Lawson, einum yfirmanna fæðingardeildarinnar, að það eigi að heyra fortíðinni til að fólk hjali við og stari á annarra manna börn. Hún bendir á að sýkingarhætta geti fylgt slíkri hegðun og segir mörg dæmi þess að fólk láti sér ekki nægja að horfa á börnin heldur snerti þau og tali um líkt og ef þau væru vörur í stórmarkaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×