Erlent

Fellibylurinn Damrey í Víetnam

Fellibylurinn Damrey gekk á land í Víetnam í dag en hann hefur farið niður eftir austurströnd Kína undanfarna sólarhringa. Alls létust níu manns í Kína af völdum fellibylsins, en flestir þeirra urðu undir þegar byggingar eða tré hrundu. Mikill viðbúnaður er í norður- og miðhluta Víetnams vegna fellibylsins og yfirgáfu 300 þúsund manns heimili sín áður en Damrey gekk á land. Lögregla og her fylgjast vel með sjóvarnargörðum við ströndina sem komið var upp til að verja hrísgrjónaakra, en veðurfræðingar höfðu spáð því að allt að fimm og hálfs metra háar öldur fylgdu óveðrinu. Þá óttast menn einnig skyndiflóð í ám og aurskriður vegna mikils úrhellis sem fyglir Damrey.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×