Innlent

Enn ekki verið yfirheyrður

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Austurlands hefur enn ekki verið yfirheyrður vegna ákæru á hendur honum og sex öðrum vegna gruns um misnotkun á fjármunum sjóðsins. Þrú ár eru liðin frá því að málið var kært. Hrafnkell A. Jónsson, fyrrum formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Austurlands og einn sjömenninganna sem legið hefur undir ámæli vegna fjárfestinga í nafni sjóðsins, sagðist í fréttum Stöðvar 2 í gær vera ósáttur við að meintar sakargiftir hans og annarra stjórnarmanna í Lífeyrissjóði Austurlands væru fyrndar. Hann kvaðst hafa heyrt af því við skýrslutöku hjá embætti efnhagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra fyrir mánuði. Árið 2003 lögðu fjórir sjóðsfélagar fram ákæru á hendur fyrrum stjórnendum sjóðsins vegna fjárfestinga á árunum 1991-2000. Síðan hefur málið verið rannsakað af efnhagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Fyrir liggur að sjóðurinn fjárfesti meira en leyfilegt er í óskráðum hlutabréfum, meðal annars í knattspyrnufélaginu Stoke City á Englandi. Hrafnkell er þó ekki einn um að hafa fengið þessi tíðindi af fyrningu. Öðrum stjórnarmönnum sem fréttastofa ræddi við í dag hefur einnig verið tjáð að meintar sakir þeirra séu fyrndar. Reynist það rétt eru einungis tveir menn sem hafa réttarstöðu grunaðra í málinu: fyrrum framkvæmdastjóri sjóðsins og endurskoðandi. Annar þeirra, Gísli Marteinsson, fyrrum framkvæmdastjóri, vildi ekki veita fréttastofu viðtal í dag en aðspurður kvaðst hann ekkert hafa heyrt af gangi rannsóknarinnar né heldur hafi hann verið kallaður til skýrslutöku í málinu, nú nærri þremur árum eftir að kæra var lögð fram. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að fyrir um hálfu ári hafi kærendur sett sig í samband við yfirmann rannsóknarinnar og spurt um gang mála. Var þeim tjáð þá að sakir í máli Lífeyrissjóðs Austurlands myndu ekki fyrnast sökum alvarleika meintra brota. Var þeim jafnframt tjáð þá að nýr aðili væri tekinn við rannsókn málsins, en samkvæmt heimildum fréttastofu mun það vera í annað sinn sem skipt er um yfirmann rannsóknarinnar á þremur árum. Enn bólar þó ekkert á ákæru í málinu. Gísli Marteinsson hefur áður verið ákærður vegna málefna sjóðsins. Fyrir ári var hann sýknaður í Hæstarétti af ákærum um óheimilar lánveitingar sjóðsins til erlends fyrirtækis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×