Erlent

Afsögn ráðherra veldur ólgu

Stjórnarkreppa blasir við á Ítalíu í kjölfar þess að forsætisráðherrann, Silvio Berlusconi krafðist þess á föstudag að bankastjóri Seðlabanka Ítalíu segði af sér. Fjármálaráðherra ítölsku ríkisstjórnarinnar, Domenico Siniscalco, sagði af sér embætti á fimmtudag þar sem tilraunir hans til að koma Fazio frá völdum í seðlabankanum höfðu mistekist. Háværar ásakanir eru á hendur Fazio um að hann hafi verið vilhallur ítalska bankanum Popolare Scarl í samkeppni við hollenska Amro bankann um yfirtöku á Banco Antonveneta. Fjölmiðlar á Ítalíu hafa birt hleruð samtöl sem benda eindregið til þessa. Fazio neitar öllum ásökunum og ætlar ekki að segja af sér. Giulio Tremonti hefur tekið við embætti fjármálaráðherra. Hann er svarinn andstæðingur Fazios. Hann hefur hvatt Fazio til að segja af sér. "Afsögn Siniscalcos er rothöggið fyrir trúverðugleika stjórnar Berlusconis," segir í ítalska dagblaðinu Corriere della Sera á föstudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×