Innlent

Heimdellingar deila um fulltrúa

Deilt er um hvaða félagar Heimdalls, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, fái að sækja þing Sambands ungra sjálfstæðismanna 30. september. Um tuttugu ungir sjálfstæðismenn sem fá að sækja þingið sem aukamenn, auk tíu annarra hafa mótmælt mannavali á þingið og segja 50 nýskráða félaga tekna fram yfir fyrrum stjórnarmenn í Heimdalli. Meðal þeirra sem mótmæla er Bjarney Sonja Ólafsdóttir, varastjórnarmaður í SUS, sem verður varmaður og mun því ekki hafa kosningarétt á þinginu. "Við höfum öll starfað fyrir flokkinn í mörg ár og það er mjög óeðlilegt að aðrir nýkomnir fái seturétt í staðinn fyrir okkur. Stefnumótunarstarf fer fram á þinginu og þar vil ég hafa áhrif." Heimdallur fær að senda 150 fulltrúa á þingið, en Bolli Thoroddssen, formaður Heimdallar, segir 286 félagsmenn hafa sótt um. Engum hafi verið hafnað, en ekki allir fái að vera aðalmenn. "Það má ekki vera geðþóttaákvörðun hvernig valið er á þingið," segir Bolli. "Þeir sem hafa forgang eru þeir sem hafa verið virkir í starfinu í vetur. Þeir hafa verið fleiri en undanfarin ár." Auk þeirra voru settir í forgang stjórnarmeðlimir Heimdallar og SUS, kjörnir fulltrúar flokksins auk eldri forystumanna Heimdallar, en af þeim hafi mjög margir sótt um.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×