Erlent

Krefjast kjarnaofna að gjöf

Ráðamenn í Norður-Kóreu sögðu í gær að þeir myndu ekki hætta við kjarnorkuáætlun sína nema fá léttvatns-kjarnaofna til friðsamlegrar raforkuframleiðslu að gjöf frá Bandaríkjamönnum. Þessar nýju kröfur virtust stefna í uppnám samkomulagi sem náðist í Peking á mánudag um að Norður-Kóreumenn hyrfu frá kjarnavopnaáformum sínum í skiptum fyrir efnahagsaðstoð auk trygginga fyrir öryggi norður-kóreska ríkisins. Viðbrögð við þessum nýju kröfum voru misjöfn í gær en þær þóttu almennt staðfesta hve óútreiknanleg kommúnistastjórnin í Pyongyang væri. Suður-Kóreumenn kipptu sér lítið upp við þessar nýju kröfur og sögðu þær aðeins samningabrellu, settar fram í því skyni að styrkja samningsstöðu Norður-Kóreumanna í þeim viðræðum sem framundan væru. Samkomulaginu hafði verið fagnað sem fyrsta áþreifanlega árangrinum af "sexhliða viðræðunum" sem hófust fyrst árið 2003 með þátttöku fulltrúa beggja kóresku ríkjanna, Kína, Japans, Bandaríkjanna og Rússlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×