Erlent

Mikilvægt skref fyrir lýðræðið

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, sigraði með yfirburðum í fyrstu forsetakosningum landsins þar sem kjósendur máttu velja á milli tveggja eða fleiri frambjóðenda. Mubarak fékk 88,6 prósent atkvæða en næstflest atkvæði fékk Ayman Nour, 7,3 prósent. Kjörsókn var lítil, innan við fjórðungur þeirra 32 milljóna Egypta sem höfðu kosningarétt sá ástæðu til að mæta á kjörstað. Þrátt fyrir þetta fagna stjórnmálaskýrendur kosningunum sem framfaraskrefi fyrir lýðræðisvæðingu í Egyptalandi. Kosningarnar eru þær fyrstu í aldarfjórðungs valdatíð Mubaraks þar sem mótframboð er leyfilegt. Áður völdu þingmenn einn frambjóðanda sem kjósendur gátu greitt atkvæði sitt eða hafnað. Sá frambjóðandi var alltaf Hosni Mubarak. "23 prósenta kjörsókn var skref í rétta átt, í ljósi þess að einungis þrír alvöru frambjóðendur voru í boði og kosningabaráttan stutt," sagði stjórnmálaskýrandinn Diaa Rashwan. "Almennt treysta Egyptar ekki stjórnmálaferlinu og nú var í fyrsta sinn þörf fyrir þá að kjósa." Amr el-Choubaki fagnaði því að dómarar hefðu fylgst með kosningunum og því tryggt að kjörsókn væri rétt skráð, en hún hefur löngum verið ofmetin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×