Erlent

300 lík fundin á hamfarasvæðunum

Þrjú hundruð lík hafa nú fundist á hamfarasvæðunum í suðurríkjum Bandaríkjanna. Þangað hafa verið sendir tuttugu og fimm þúsund líkpokar. Þeir sem enn halda til í New Orleans eru nú þvingaðir á brott. Lögreglu- og björgunarsveitarmenn eru nú að mestu búnir að kemba New Orleans í leit sinni að fólki sem vildi komast burt og snúa sér nú að þeim sem vilja ekki fara. Talið er að það séu um tíu þúsund manns sem flutt verða á brott með góðu eða illu. Víðtæk leit að líkum hófst í gær og hafa tuttugu og fimm þúsund líkpokar verið sendir til borgarinnar. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gærkvöldi einróma fimmtíu og tveggja milljarða dollara aukafjárveitingu vegna hamfaranna og Bush forseti skrifaði undir það í hvelli en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir léleg og hæg viðbrögð stjórnvalda. Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bætist í kvöld í hóp gagnrýnendanna. Powell var talinn líklegur stjórnandi samhæfðra aðgerða yfirvalda en í viðtali sem birt verður í kvöld á sjónvarpsstöðinni ABC segir hann að víðtæk mistök hafi verið gerð á öllum stjórnvaldsstigum. Viðvaranir hafi verið margar og komið tímanlega en lítið sem ekkert hafi verið gert. Hann tók hins vegar ekki undir fullyrðingar margra samfélags- og stjórnmálaleiðtoga sem hafa lýst þeirri skoðun sinni að kynþáttur fjölmargra íbúa sem urðu fyrir barðinu á Katrínu hafi skipt máli. Meirihluti þeirra sem verst urðu úti eru fátækir og svartir og því hefur víða verið haldið fram að það sé ástæða þess hversu illa og hægt hafi verið brugðist við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×