Innlent

Býður sig fram til varaformanns

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til varformanns Sjálfstæðisflokksins. Í samtali við fréttastofu segist hún hafa ákveðið það eftir þau stóru tímamót sem urðu í íslenskum stjórnmálum í gær. Hún segist hafa gert það til að geta haldið áfram að framkvæma þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir. Þar sem konum fjölgar ekki í ríkisstjórn var Þorgerður Katrín spurð að því hvort að krafan um konu í varaformann yrði þá hávær. Þorgerður Katrín sagðist ekki vilja setja sitt framboð fram þannig að hún væri að koma fram sem kona. Hún sagðist vera að fara fram sem einstaklingur sem ætlaði að halda uppi merkjum Sjálfstæðisflokksins og hún sagðist hafa þá trú að þau málefni sem þau hafa barist fyrir og sú stefna sem flokkurinn stendur fyrir sé til farsældar fyrir þjóðina.  Aðspurð um hugsanlega baráttu milli hennar og Árna Mathiesen þar sem þau koma bæði úr sama kjördæmi og úr sama bæjarfélagi sagði Þorgerður Katrín að samband þeirra væri gott bæði í stjórnmálum og utan þeirra. Hún sagði Árna vera hárréttan mann í embætti fjármálaráðherra. Hún sagði að margir hefðu komið að máli við sig bæði í tölvuskeytum og í síma og lýst yfir stuðningi við hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×