Erlent

Flóðin eru heldur í rénun

Flóðin í Mið-Evrópu sem hafa dregið í það minnsta 42 manns til dauða eru heldur í rénun. Í Bern, höfðuborg Sviss, þurfti aftur á móti að rýma fjölda húsa þegar áin Aare flæddi yfir bakka sína. Mikið lægðakerfi hefur gengið yfir miðja Evrópu síðustu daga og hefur úrkoma verið með allra mesta móti. Ár hafa flætt yfir bakka sína og flóðgarðar brostið með tilheyrandi eignatjóni. Í gær fór hins vegar að draga úr úrkomunni og um leið tók vatnið víða að sjatna. Rennslið í Dóná náði hins vegar ekki hámarki fyrr en í gærkvöldi. Verst hefur ástandið verið í austanverðri álfunni, í Rúmeníu týndu 31 lífi þegar flóð kaffærðu 1.400 hús um mitt landið. Þar er þriggja ennþá saknað, þeirra á meðal er fjögurra ára gömul stúlka. Ellefu manns eru látnir eða er saknað í Þýskalandi, Austurríki og Sviss og mikið tjón hefur orðið á mannvirkjum og ökrum í Búlgaríu, Slóveníu og Moldóvu. Í Alpahéruðunum rofnuðu allar samgöngur við fjölda þorpa eftir að vatnselgurinn reif vegi í sundur. Varð að flytja vistir á vettvang með þyrlum. Í Sviss hefur ástandið verið með versta móti. Gamli bærinn í Luzern er nánast á kafi og rýma varð fjölda húsa í höfuðborginni Bern þegar áin Aare tók að flæða yfir bakka sína. Þyrlur hífðu fólk á brott sem hafði leitað skjóls undan flóðinu á þaki húsa sinna. Talið er að tólf manns séu fastir inni í húsunum og sögðu stjórnvöld að staðan væri viðkvæm í gær. Grétar Rafn Steinsson, knattspyrnumaður með Young Boys, býr í Bern. "Engin röskun er á högum okkar sem búum ofar í borginni . Allt er hins vegar á floti hjá þeim sem búa við árbakkann, þar sér maður hústoppana rétt standa upp úr." Grétar segir samgöngur ganga greiðlega á milli bæjarhluta en viðurkennir að ástandið sé víða slæmt. "Sumir staðir eru algerlega á kafi undir vatni. Í bænum hér við hliðina er heimavöllur liðsins Thun og hann er núna þrjá metra undir vatni. Liðið var að komast í Meistaradeildina í vikunni en þeir munu ekki spila á vellinum sínum á næstunni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×