Erlent

Svörtu kassarnir til Frakklands

Talið er að bilun í jafnþrýstibúnaði hafi orðið til þess að flugvél kýpverska Helios-flugfélagsins fórst á sunnudaginn. Svörtu kassar Boeing 737 þotunnar sem fórst norður af Aþenu í fyrradag hafa verið sendir til Frakklands til frekari rannsókna. Flest virðist hins vegar benda til að bilun í jafnþrýstibúnaði vélarinnar hafi valdið slysinu og er jafnvel talið að þeir 121 sem voru um borð hafi látist vegna súrefnisskorts löngu áður en vélin hrapaði. Flugmenn F-16 orrustuþotnanna sem fylgdu vélinni um skeið sögðust hafa séð flugmanninn meðvitundarlausan í flugstjórnarklefanum og farþega reyna að stýra vélinni. Áhafnir annarra véla Helios-flugfélagsins neituðu í gær að fljúga eftir að spurðist út að oft hafði verið kvartað yfir ýmiss konar bilunum í vélinni sem fórst. Talsmenn fyrirtækisins vísuðu því hins vegar algerlega á bug. Ættingjar hinna látnu fóru til líkhúsa í Aþenu í gær til að bera kennsl á ástvini sína. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir á Kýpur og í dag verður fánum flaggað í hálfa stöng í Grikklandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×