Innlent

Veiðar ekki inni á skoðunarsvæði

Vísindaveiðar á hval eiga ekki að ná inn á svæði hvalaskoðunarskipanna að sögn Hafrannsóknastofnunar. Ekki er útilokað að hvalhræið sem fannst á dögunum sé tilkomið vegna veiðanna en þó mælir margt gegn því. Gísli Víkingsson hjá Hafrannsóknarstofnun segir símtöl til hvalaskoðunarfyrirtækja ekki sönnun um að veitt sé í nánd við svæði skoðunarferðanna eins og Guðmundur Gestsson, framkvæmdastjóri Hafsúlunnar, hélt fram í fréttum Stöðvar 2 í gær. Gísli segir að til þess að lágmarka árekstra hafi verið tekið upp kerfi sem snúist um það að hringja í hvalaskoðunarfyrirtækin til að athuga hvort þau hyggist fara út fyrir hin hefðbundnu skoðunarsvæði. Ef svo sé haldi veiðimenn sig frá þeim svæðum. Aðspuður hvort það geti verið að hvalhræið sem fannst á Faxaflóa sé eftir vísindaveiðar segist Gísli ekki hægt að útiloka það en hann telji það mjög ólíklegt. Í veiðunum er einungis hluti hvalsins tekinn með í land. Beinagrind, innyflum og ýmsu öðru er sökkt og segir Gísli að mjög vel sé gengið frá því. Þar að auki hafi þetta hræ fundist óvenjulangt frá þeirra miðum. Þá segir hann rangt að meira sé veitt á ákveðnum svæðum en ætlað er til að fylla upp í kvótann. Hann segir veiðunum dreift eftir árstíma og á níu hólf í kringum landið. Það sé ákveðinn fjöldi dýra tekinn úr hverju hólfi til þess að fá sem best sýni af fæðunni í öllum landshlutum og eftir árstíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×