Innlent

Þúsundir kvartana á síðasta ári

Kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna bárust tæplega tíu þúsund erindi á síðasta ári en erindin varða bæði almennar fyrirspurnir sem og kvartanir vegna þjónustu eða viðskipta. Ívið fleiri konur höfðu samband en karlar en flestar kvartanir voru vegna fatnaðar eða skartgripa. Önnur mál sem fóru fyrir kvörtunarþjónustuna varðaði ferðamál, húsgögn og tölvur og búnað tengdan þeim. Af öðrum erindum og fyrirspurnum var mest spurt um bifreiðar og önnur farartæki, fasteignir og tölvur og raftæki hvers konar. Þá þurfti lögfræðilega ráðgjöf í 343 tilfellum. Hefur Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, gagnrýnt að ríkið kemur aðeins að litlum hluta til móts við samtökin hvað varðar þann mikla kostnað sem hlýst af rekstri kvörtunarþjónustunnar en samkomulag er milli Neytendasamtakanna og Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis um að þeir sinni kvörtunarmálum allra sem þangað leita. Er kostnaðurinn þó öllu meiri en ráðuneytið hefur greitt vegna þess og leggst hann á félagsmenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×