Innlent

Hafsíld húkkuð á færi

Jón Eiríksson, Drangeyjarjarl og skipstjóri hjá Drangeyjarferðum, var heldur betur hissa þegar leiðsögumaður fjögurra manna ferðamannahóps húkkaði hafsíld um borð í skip hans á dögunum. "Það hefur nú ekkert orðið vart við síld hérna og mér fannst skrítið að hann skyldi veiða þetta á færi," segir Jón hressilega en síldin góða veiddist rétt fram af Hafnargarðinum. Hann telur þó ekki víst að þetta sé til marks um að síldin sé að koma aftur. "Ég sá nú ekki vaðandi síld en það lóðaði þarna talsvert," segir Jón, sem veit til þess að síld hafi veiðst á færi en ekki í seinni tíð. "Hvort þetta er Norðansíldin sjálf skal ég ekki segja um enda fannst mér hún heldur lítil til þess," segir Jón, sem gladdist mjög að sjá síld í Skagafirði því hún hefur varla sést vaðandi þar síðan árið 1950. "Þá var mikið af henni og svartur sjór stundum," segir Jón en hann man til þess að hafa talið 73 síldarskip á firðinum þegar hann var ungur drengur á fjórða áratugnum. "Maður fær smá fiðring þegar maður sér svona," segir Jón hlæjandi og en segist þó engin vísindamaður í síldinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×