Innlent

Féll úr rennibraut og tannbrotnaði

Rúmlega ársgamall drengur datt á höfuðið úr rennibraut í barnagæslu Sporthússins á dögunum. "Það brotnaði í honum tönn og hann marðist einnig á höfðinu," segir móðir hans. "Ég brýndi það sérstaklega fyrir gæslustúlkunum að hann mætti ekki vera einn í rennibrautinni. " Engin önnur börn voru í gæslu á þessum tíma nema drengurinn og eldri systir hans, en þetta var nokkuð seint um kvöld. "Ég er mjög ánægð með að eiga kost á þessari þjónustu en hún verður þá að vera pottþétt. Þú sleppir ekki hendinni af ársgömlu barni í rennibraut." "Þetta var bara slys," segir Anna María Garðarsdóttir framkvæmdastjóri. "Þau gera ekki boð á undan sér." Hún segir að gæslustúlkan hafi staðið við hlið drengsins í rennibrautinni en hafi rétt litið undan til að kalla á systur hans, til að hún sofnaði ekki, þegar drengurinn féll. "Stúlkan sem var á vakt hefur mikla reynslu af börnum, hefur sótt námskeið hjá Rauða krossinum og vinnur bæði á leikskóla og róluvelli."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×