Innlent

Barnatælari á rauðum bíl

Lögreglan í Kópavogi rannsakar hvort barnaníðingur hafi reynt að tæla þrjá unga drengi út í bíl til sín í Smáralindinni á föstudaginn. Hringt var í almenningssíma í verslunarmiðstöðinni og drengjunum lofað sælgæti ef þeir kæmu út í rauðan bíl á bílastæðinu. Þetta er þriðja sinn á síðustu tíu mánuðum þar sem rauður bíll kemur við sögu í slíkum málum. Systur sem sátu á veitingastaðnum Burger King í Smáralindinni á föstudag, veittu því athygli að hringt var í gríð og erg í almenningssíma við veitingastaðinn. Þær sáu þrjá unga drengi svara í símann. Þeim var boðið að koma út í rauðan bíl utan við Smáralindina. Guðný Jónsdóttir sagði símasjálfsala hafa hringt ákaflega og í símanum var maður sem bauð þremur drengjum, sem svöruðu í símann, að koma út í bíl til sín að þiggja sælgæti. Systurnar svöruðu í símann og þá andaði maðurinn í símann í stað þess að tala. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rauður bíll kemur upp í slíkum málum. Lögreglan í Keflavík rannsakaði fyrir stuttu mál þar sem ungum drengjum var boðið að koma upp í rauðan bíl fyrir utan grunnskóla í Keflavík og í nóvember í fyrra lokkaði maður á rauðum bíl unga stúlku upp í bíl sinn í Kópavogi og flutti hana nauðuga að Skálafellsafleggjara, þar sem hún var skilin eftir. Guðný sagði drengina hafa ætlað út til að grennslast fyrir um hvaða bíll væri fyrir utan og sagði þá hafa viljað vita nánari deili á manninum og að þeir hafi viljað fá sælgætið. Hún sagðist hafa komið í veg fyrir að þeir færu út. Hún lagði áherslu á það við foreldra að tala um fyrir börnunum sínum og banna þeim að svara í símann á svona stöðum. Öryggisverðir í Smáralindinni tilkynntu lögreglunni um málið og hefur verið unnið að rannsókn þess síðan. Að sögn Björgvins Björgvinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns í Kópavogi eru mál sem þessi alltaf tekin alvarlega, en ekki sé útilokað að um símagabb hafi verið að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×