Innlent

Hlaup hafið í Skaftá

Hlaup er hafið í Skaftá. Sverrir Elefsen hjá vatnamælingum Orkustofnunar segir allt útlit fyrir að hlaupvatn sé að koma fram við Sveinstind. Fyrstu merkin um það séu frá því milli klukkan 4 og 5 í morgun þegar regluleg dægursveifla í rennslinu hætti og það byrjaði að aukast hægt og rólega. Eins er rafleiðnin að aukast sem bendi til þess að jarðhitavatn sé komið í ána og þar með hafið hlaup. Sverrir treystir sér ekki til að spá fyrir um hvenær hlaupið gæti náð hámarki en það verði líklega svipað og síðast; það fari reyndar eftir því hvort hlaupið eigi upptök sín í austari eða vestari Skaftárkötlum. Sverrir segir ekki hyggilegt fyrir ferðamenn að dvelja mikið við útföll Skaftár upp við jökul. Þjóðveginum á þó ekki að standa mikil hætta af hlaupinu, a.m.k. ekki í bili. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×