Innlent

Krani fór á hliðina á Sultartanga

Kranastjóri við Sultartanga á fótum sínum fjör að launa í gærkvöld þegar krani sem notaður var til að reisa stagmastur fór á hliðina. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er verið að leggja nýja línu við Sultartanga og höfðu fjögur möstur verið reist daginn áður. Þegar vinna hófst í gærmorgun gáfu undirstöður hliðartjakka undan við fyrsta mastrið. Kraninn, sem er afar stór og hefur 80 tonna lyftigetu, fór þá að halla og endaði með því að leggjast á hliðina. Kranastjórinn sýndi mikið snarræði og náði að forða sér úr stýrishúsinu áður en það gerðist og meiddist lítt sem ekkert. Mastrið féll niður í óhappinu og kranabómann ofan á það og urðu hvort tveggja fyrir einhverjum skemmdum. Um tugur verkamanna stóð álengdar þegar þetta gerðist en þeir náðu allir að forða sér áður en mastur og krani skullu á jörðinni. Fulltrúar Vinnueftirlitsins, tryggingafélaga og eigendur kranans fóru á vettvang í gær til að meta aðstæður og skemmdir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×