Lífið

Hátíðarhöld fóru vel fram

Hátíðarhöld fóru að mestu leyti vel fram á öllum útihátíðum landsins í gærkvöldi og nótt. Engin nauðgunarmál höfðu verið tilkynnt til lögreglu í morgun. Nóttin var með rólegasta móti á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þó voru tveir menn teknir með lítilræði af fíkniefnum og gista þeir fangageymslur lögreglunnar. Í Herjólfsdal eru nú á milli átta og níu þúsund manns og lék veðrið við Þjóðhátíðargesti í nótt. Að sögn varðstjóra lögreglunnar í Eyjum er þar nú hið besta veður en alls eru um tuttugu lögreglumenn á vakt. Fjögur minniháttar fíkniefnamál komu upp á Akureyri í nótt og tveir voru fluttir á slysadeild eftir slagsmál. Að öðru leyti var nóttin róleg að sögn lögreglunnar í bænum. Forsvarsmenn hátíðarhaldanna á Akureyri treysta sér ekki til að slá á fjölda fólks í bænum en segja að þar sé mjög fjölmennt. Á sjötta þúsund manns eru á unglingalandsmóti UMFÍ í Vík í Mýrdal og þar var allt með kyrrum kjörum í nótt. Á Kirkjubæjarklaustri eru um þrjú þúsund manns á óskipulagðri útihátíð og þurfti lögreglan á Vík að hafa töluverð afskipti af fólki þar vegna ölvunarláta. Á Neistaflugi í Neskaupsstað eru um tvö þúsund manns og var nóttin róleg að sögn lögreglunnar. Búist er við enn meiri fjölda en hátíðarhöld verða um allan bæ í dag. Á bindindismótinu í Galtalæk eru á bilinu tvö til þrjú þúsund manns og að sögn Sævars Finnbogasonar, framkvæmdastjóra mótsins, var nóttin róleg og menn almennt ánægðir með stemmninguna. Hann segist búast við að fólki fjölgi í Galtalæk í dag. Um 500 manns eru á Álfaborgarséns í Borgarfirði eystra og þar fóru hátíðarhöld vel fram að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum. Og nóttin var róleg í höfuðborginni að sögn varðstjóra lögreglunnar. Lítið var af fólki í bænum en í morgun voru fjórir ökumenn teknir grunaðir um ölvun við akstur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.