Innlent

Búist við 10 þúsund manns í Eyjum

Veðurblíða lék við hátíðagesti um allt land í gær og víðast er spáð áframhaldandi góðviðri. Mikil umferð hefur verið víðast hvar um landið, en þó sagði lögreglan á Selfossi hana ekki vera mikið meiri en um venjulega helgi. Flestir gestir voru í Vestmannaeyjum í gær. Þar hefur allt farið vel fram þótt mestur fjöldi þjóðhátíðargesta hafi mætt á svæðið í gær. Búast má við að níu þúsund gestir séu nú á Þjóðhátíð. Á Akureyri byrjaði fólk að streyma í bæinn seinnipartinn. Lögreglan bjóst við að umferðin myndi ná hámarki upp úr miðnætti. Tjaldstæðið í Þórunnarstræti var orðið fullt um áttaleytið í gær en nóg pláss var eftir á tjaldsvæðinu í Hömrum. Um þúsund manns voru í Galtalæk undir kvöld í gær. Ekki sást vín á nokkrum manni en rappsveitin Hæsta hendin var að fara að spila þegar Fréttablaðið talaði við lögregluna í Rangárvallasýslu. Í Neskaupstað fór straumurinn að koma á Neistaflugið um þrjú í gær og fór gestafjöldinn vaxandi upp úr því. Fjöldi gesta lá þó ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×