Erlent

9 milljarðar í lottópottinum

Margur verður af aurum api segir málshátturinn. Sá sem vinnur stóra vinninginn í Evrópulottóinu í kvöld verður þá væntanlega górilla því að nærri níu milljarðar eru í pottinum. Potturinn í Evrópulottóinu er orðinn nífaldur og hefur aldrei verið hærri. Enginn hefur nælt sér í þann stóra síðan tuttugasta maí og engin breyting varð á því í síðustu viku þegar sextíu og sex milljónir evra voru í boði. Nú hefur sú upphæð nærri tvöfaldast og sá sem vinnur aðalvinninginn í kvöld getur á von á um það bil 8,9 milljörðum íslenskra króna. Seinna í kvöld kemur svo í ljós hvort draumarnir rætast en ef lottóspilararnir taka mark á líkindareikningi er líklega best fyrir þá að búa sig undir að mæta í vinnuna á morgun, því að það er ekki nema einn á móti 76 milljónum á að hreppa hnossið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×