Innlent

Vill endurskilgreina RÚV

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur skipað Pál Magnússon í embætti útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins til fimm ára. Hann tekur við störfum 1. september næstkomandi. "Það væru ýkjur að segja að ég hefði mótaðar hugmyndir um fyrstu verk mín sem útvarpsstjóri," segir Páll. "Það er hins vegar alveg ljóst að fram undan eru talsverðar breytingar hjá Ríkisútvarpinu, sem gerir þetta verkefni spennandi og áhugavert. Það er verið að setja ný lög um Ríkisútvarpið, sem er ekki vanþörf á. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það þurfi að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins í ljósi breyttra tíma. Í öllum aðalatriðum er hlutverk þess nú skilgreint eins og gert var við stofnun þess fyrir um 75 árum. Þegar þessar breytingar verða er ágætt að þær fari saman við það að nýr karl er í brúnni." Páll lauk phil. cand. prófi í stjórnmála- og hagsögu frá Háskólanum í Lundi árið 1979. Hann á að baki um 25 ára starfsferil sem blaðamaður, fréttamaður, fréttastjóri og sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 og forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×